Viðskiptaskilmálar

1. Gildissvið

Almennir viðskiptaskilmálar N1 Rafmagn, kt.4712161190, Dalvegi 10-14, 201 Kópavogi, um raforkusölusamninga fyrirtækisins, nema um annað sé sérstaklega samið. Viðskiptaskilmálar þessir teljast samningur um viðskipti með raforku milli sölufyrirtækis og almenns notanda samkvæmt  7. gr. reglugerðar nr. 1150/2019. Þegar viðskiptavinur gerir raforkusölusamning við N1 Rafmagn um kaup á raforku, hvort sem slíkur samningur er gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti, þá samþykkir viðskiptavinur að viðskiptaskilmálar þessir gildi um samninginn. Um sölu N1 Rafmagn gilda raforkulög nr. 65/2003 með síðari breytingum  og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019. Raforkusala er undanþegin ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Það athugast að viðskiptaskilmálar þessir taka eingöngu til sölu á raforku, en ekki flutnings og dreifingar hennar af hálfu annarra.

2. Notkun, verð og greiðsluskilmálar

Með gerð raforkusölusamnings við N1 Rafmagn þá samþykkir viðskiptavinur að veita sölufyrirtæki umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun viðskiptavinar frá viðkomandi dreifikerfi. Umboðið nær meðal annars til upplýsinga um númer veitu og mælis, dreifisvæði, heimilisfang, núverandi söluaðila raforku að hluta til, dreifiveitutaxta, áætlaðri ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestri, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðli og stafafjölda. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru tímagildin afhent allt að 24 mánuði aftur í tímann. Raforkunotkun viðskiptavinar, við gerð raforkusölusamnings, er notuð til að ákvarða áætlun um orkunotkun. Sé um að ræða nýjan viðskiptavin sem ekki hefur áður keypt raforku er heimilt að áætla notkun með hliðsjón af sambærilegri notkun. Ef ekki er um annað samið þá fer verð N1 Rafmagn eftir gildandi verðskrá N1 Rafmagn hverju sinni (kr./kWst.). Verðskrána er að finna á heimasíðu fyrirtækisins en auk þessa birtist verðið á reikningum frá N1 Rafmagn. Reikningar vegna raforkunotkunar eru sendir mánaðarlega.

Gjalddagi á reikningum fyrirtækja er 10. hvers mánaðar með eindaga 20. hvers mánaðar eða næsta virka dag þar á eftir.

Gjalddagi á reikningum einstaklinga er 20. hvers mánaðar með eindaga fyrsta virka dag næsta mánaðar á eftir.

N1 Rafmagn áskilur sér rétt til þess að innheimta greiðslugjald vegna reikninga sem sendir eru til viðskiptavina. Greiðslugjaldið skal birt í verðskrá og koma fram á greiðsluseðli kröfu. Ef viðskiptavinur er að skipta um söluaðila raforku þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 9. kafla Netmála Landsnets hf., sbr B6 skilmálar um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.

3. Uppsögn samnings

Raforkusölusamningar N1 Rafmagn og viðskiptavina eru ótímabundnir nema um annað sé samið. Báðum aðilum samningsins er heimilt að segja upp raforkusölusamningnum með eins mánaða fyrirvara, nema um annað sé sérstaklega samið, og tekur uppsögnin gildi 1. næsta mánaðar frá tilkynningu þar um.

4. Innheimta, dráttarvextir og stöðvun orkuafhendingar

Verði reikningur ekki greiddur á gjalddaga reiknast af dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá gjalddaga og til greiðsludags. Auk dráttarvaxta getur fallið til innheimtukostnaður í samræmi við lög og reglur um innheimtu fjárkrafa. Eftir gjalddaga er viðskiptavini send skrifleg áskorun til viðskiptavinar um að greiða raforkuskuld ásamt viðvörun um að við greiðslufall er heimilt að stöðva orkuafhendingu vegna vanskila sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 1150/2019. Heimild er í 43. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, til aðfarar án undangengis dóms eða sáttar.

5. Riftun

N1 Rafmagn er heimilt að rifta raforkusölusamningi við viðskiptavin verði vanskil þrátt fyrir greiðsluáskorun, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1150/2019.

6. Ábyrgðarreglur

Skaðabótaréttur viðskiptavinar skal ætíð takmarkast við beint tjón. N1 Rafmagn ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til óviðráðanlegra atvika svo sem vegna orkuskorts, styrjalda og náttúruhamfara, þ.á m. óveðurstjóns. N1 Rafmagn ber ekki ábyrgð á þeim skyldum sem hvíla á flutningsfyrirtæki orku og dreifiveitu samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, til dæmis ef grípa þarf til skömmtunar á raforku til notenda ef framboð er ekki fullnægjandi. Tengisamningur við dreifiveitu er ekki hluti samnings viðskiptavinar og N1 Rafmagn. Dreifiveita ber m.a. ábyrgð á uppsetningu, rekstri og viðhaldi mælibúnaðar sem og söfnun, leiðréttingu, staðfestingu og dreifingu mæligagna. Viðskiptavini ber að virða skilmála dreifiveitna og Landsnets hf., sbr. og gildandi Netmál Landsnets hf. Ef erfiðleikar eru við orkuöflun er N1 Rafmagn heimilt að skerða afhendingu raforku, án þess að til bótaskyldu stofnist. Viðskiptavinum skal tilkynnt um fyrrhugaða skerðingu ef til kemur.

7. Nýr notandi

N1 Rafmagn áskilur sér rétt til þess að synja nýjum aðila um afhendingu á raforku, svo sem ef raforkunotkun hans er þess eðlis að fyrirtækinu er ekki mögulegt að afhenda umbeðið magn af orku eða vegna vangoldinna reikninga eða ógjaldfærni.

N1 Rafmagn er heimilt að leita allra upplýsinga sem fyrirtækið telur nauðsynlegar til að afgreiða umsókn viðskiptamanns um raforkusölu svo sem upplýsingar frá Creditinfo.

8. Ágreiningur og varnarþing

Komi upp ágreiningur milli N1 Rafmagn skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

9. Breytingar á viðskiptaskilmálum

N1 Rafmagn hefur heimild til að gera nauðsynlegar breytingar á viðskiptaskilmálum þessum.  Breytingar á viðskiptaskilmálunum taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu N1 Rafmagn.

10. Gildistaka

Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi 15. desember 2021.